Borði

Alþjóðlegi skjaladagurinn 2014

Síðast uppfært: Þriðjudagur, 10. júní 2014 01:20 Mánudagur, 09. júní 2014 17:46

Mánudaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn sem skjalasöfn um allan heim taka þátt í með einum eða öðrum hætti. Á þessum degi er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á Íslandi taka héraðsskjalasöfn landsins þátt í deginum að vanda. Daginn ber upp á annan í hvítasunnu að þessu sinni og mun því Félag héraðsskjalavarða á Íslandi standa fyrir málþingi fyrir starfmenn héraðsskjalasafna miðvikudaginn 11. júní. Gagnger endurskoðun á vefsíðu félagsins stendur yfir þessa dagana og er stefnt að því að henni ljúki hið fyrsta.

Um Alþjóðlega skjaladaginn á vef Alþjóða skjalaráðsins.

Vefur Alþjóðlega skjaladagsins 2014.

Héraðsskjalasöfnin eru tuttugu talsins um land allt. Meginhlutverk þeirra er að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Jafnframt taka þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnasvæðinu. Héraðsskjalasöfnin varðveita því söguna heima í héraði og gegna margvíslegu menningarlegu og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint er í lögum.

 

Ljósmyndavefur Austfirðinga

Mánudagur, 09. júní 2014 17:37

Í maílok 2014 hleypti Héraðsskjalasafn Austfirðinga af stokkunum ljósmyndavef á þessari slóð myndir.heraust.is.

Á vefnum eru um 55 þúsund myndir í eigu Ljósmyndasafns Austurlands, sem er sérstök deild innan Héraðsskjalasafnsins. Þar er hægt að skoða fjölbreytt myndasöfn allt frá mannamyndum teknum fyrir aldamótin 1900 til frétta- og íþróttamynda frá síðari helmingi 20. aldar.

Vefurinn er afrakstur sérstaks átaksverkefnis um skönnun og skráningu ljósmynda sem hefur staðið yfir frá árinu 2011 með sérstökum styrk frá ríkissjóði, Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi og fleiri aðilum.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga.

Heildarfjöldi mynda hjá Ljósmyndasafni Austurlands er um 80 þúsund og sífellt bætist við safnið. Myndum á ljósmyndavefnum á því eftir að fjölga enn frekar eftir því sem fjármagn fæst í verkefnið.

 

Staða héraðsskjalavarðar Skagafjarðar laus til umsóknar

Miðvikudagur, 28. maí 2014 09:38

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir laust til umsóknar starf héraðsskjalavarðar á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Héraðsskjalavörður er forstöðumaður Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Hann leiðir starfsemi safnsins og sér um fjárhagslegan rekstur þess.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun í sagnfræði eða skyldum greinum.
  • Gerð er krafa um mjög góða almenna tölvukunnáttu og æskilegt að viðkomandi hafi þekkingu á notkun tölvuforrita, s.s. Navision, OneSystems, Fotostation, Photoshop og Office.
  • Umsækjandi þarf að hafa góð tök á íslensku máli í ræðu og riti og hafa ríka samskiptahæfileika.
  • Æskilegt er að umsækjandi hafi þekkingu og reynslu í rekstri opinberra stofnana.
  • Þekking og áhugi á skagfirskri sögu er kostur.

Um 100% starf er að ræða.

Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningum BHM við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Umsóknarfrestur um starfið er til og með 15. júní 2014. 

Umsóknum sem greina frá menntun og fyrri störfum skal skila í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins www.skagafjordur.is (störf í boði) eða í gegnum íbúagátt sveitarfélagsins. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Unnar Ingvarsson héraðsskjalavörður,  Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. , eða í síma 892-6640 og Hrefna G. Björnsdóttir, mannauðsstjóri,  Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. eða í síma 455-6065.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga er elsta héraðsskjalasafn landsins, stofnað árið 1947. Safnið varðveitir stærsta safn einkaskjala utan Reykjavíkur auk mikils magns opinberra heimilda og ljósmynda. Fjölmargir gestir sækja safnið heim árlega. Starfsfólk þess svarar miklum fjölda fyrirspurna og safnið tekur virkan þátt í menningarlífi héraðsins.

 

 

Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður látinn

Síðast uppfært: Fimmtudagur, 22. maí 2014 11:12 Þriðjudagur, 13. maí 2014 02:29

 

Ólafur S. Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður lést sunnudaginn 11. maí 2014. Ólafur fæddist 20. nóvember 1947, sonur Ásgeirs Ólafssonar er var forstjóri Brunabótafélagsins og konu hans Dagmarar Gunnarsdóttur, elstur fjögurra systkina.

Ólafur var cand. mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1971, kenndi svo við Menntaskólann við Hamrahlíð og var skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi frá árinu 1977 um sjö ára skeið.

Hann var skipaður þjóðskjalavörður frá 1. desember 1984 og lét af því starfi 1. júní 2012 og er því sá maður sem lengst hefur gegnt því embætti. Í tíð hans sem þjóðskjalavarðar fluttist Þjóðskjalasafn Íslands úr Safnahúsinu í núverandi húsakynni sín að Laugavegi 162. Héraðsskjalasöfnum fjölgaði úr 13 í 20 á þessum tíma.  Ólafur sat í ýmsum nefndum á vegum Alþjóða skjalaráðsins (ICA) og var heiðursfélagi þess.

Ólafur var kvæntur Vilhelmínu Elsu Johnsen og eignuðust þau þrjú börn.

Héraðsskjalaverðir þakka fyrir gott samstarf við Ólaf og góð kynni af honum og votta fjölskyldu hans samúð.

Útför Ólafs verður gerð frá Hallgrímskirkju föstudaginn 23. maí nk. kl. 15:00.

 

Lagafrumvarp um skjalasöfn gagnrýnt

Síðast uppfært: Miðvikudagur, 26. mars 2014 14:35 Miðvikudagur, 26. mars 2014 14:14

Félag héraðsskjalavarða á Íslandi og meirihluti héraðsskjalavarða hver um sig hafa ritað umsagnir um frumvarp til laga um opinber skjalasöfn. Allar umsagnir og greinargerðir um frumvarpið sem sendar hafa verið Alþingi má sjá á vef Alþingis.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið ritaði 10. mars greinargerð til menntamálanefndar Alþingis með tillögum að breytingum á frumvarpinu með hliðsjón af framkomnum athugasemdum. Vegna greinargerðarinnar var héraðsskjalaverði Kópavogs falið af stjórn Félags héraðsskjalavarða að gera athugasemdir við hana og voru þær sendar menntamálanefnd 25. mars sl. Er þar samráðsleysi ráðuneytisins við héraðsskjalaverði átalið og bent á ýmsa galla við frumvarpið og tillögur ráðuneytisins sem virðast helgast af ókunnugleika um starfsemi skjalavörslustofnana.

Í umsögn félagsins og athugasemdum við greinargerð ráðuneytisins eru gerðar alvarlegar athugasemdir sem snúast m.a. um stjórnarskrárbundið sjálfstæði sveitarfélaga, of langvarandi leynd eftir geðþótta skjalavarða (110 ár), of óskýr ákvæði um eyðingu skjala undir einræði eins manns - sem getur komið niður á upplýsingarétti, ósveigjanlegan afhendingarfrest opinberra skjala fastbundinn við 30 ár, gallaðar hugtakaskilgreiningar, óskýrleika og ójafnvægi milli aðalatriða og aukaatriða og að texti lagafrumvarpsins er of langur.

Frumvarpstextinn er flestum ofviða vegna þess að hann er of tæknilegur og flækjustigið mikið og jafnvel meira en frumvarpssmiðirnir hafa ráðið við. Ekki er þar síst um að kenna breytingum með nýlegum upplýsingalögum sem miðast við að upplýsingaréttur til skjala hins opinbera sem eru 30 ára og yngri falli undir þau, en þrítug og eldri skjöl falla undir skjalasafnalög. Áður var upplýsingaréttur að mestu í einum lögum.

Þjóðskjalavörður og héraðsskjalaverðir eru sammála um mikilvægi varðveislu persónuupplýsinga við að gæta réttinda borgaranna. Sést sá samhljómur af umfjöllun héraðsskjalavarðar Kópavogs hér á vefnum 28. febrúar sl. og greinargerð þjóðskjalavarðar til allsherjarnefndar Alþingis 11. mars sl.
Í því samhengi er rétt að leggja áherslu á að opinberum skjalavörslustofnunum, þ.e. Þjóðskjalasafni og héraðsskjalasöfnum, er ekki ætlað að verja hagsmuni stjórnvalda fremur en almennings.  Þeim er ætlað að hafa eftirlit með skjalavörslu stjórnvalda, taka skjöl þeirra til langtímavarðveislu og veita aðgengi að þeim skv. lögum og vernda með því rétt borgaranna til skjala, en jafnframt gæta þess að hindra óviðkomandi aðgengi að viðkvæmum persónuupplýsingum skv. lögum.

Forsætisráðuneytið og mennta-og menningarmálaráðuneyti hafa komið því svo fyrir að dönsk löggjöf er einkum höfð til hliðsjónar við smíði upplýsingalaga og laga um skjalasöfn. Af öllum Norðurlöndunum þykir Danmörk hafa afturhaldssamasta og þrengsta skjalaréttinn. Sjá t.d. hér um það. Áður hafa héraðsskjalaverðir gert ítrekaðar athugasemdir við frumvarp til upplýsingalaga m.a. vegna meðfylgjandi breytinga á lögum um Þjóðskjalasafn nr. 66/1985, en frumvarpinu  til laga um opinber skjalasöfn er ætlað leysa þau af hólmi.

Einnig hafa héraðsskjalaverðir áður gert athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um opinber skjalasöfn, en átt lítinn hljómgrunn fyrir fagleg viðhorf sín hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Opinber umfjöllun í fjölmiðlum um þetta mál hefur verið lítil og er það í engu samræmi við þjóðfélagslegt mikilvægi þess.

Útvarp Saga hefur þó gert málinu góð skil og má finna þá umfjöllun hér á vefsíðu Útvarps Sögu.
Viðtal við mennta- og menningarmálaráðherra "Síðdegisútvarp - 2. hluti 13. mars 2014" á mínútu 29:40.
Viðtal við Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörð Kópavogs og Svanhildi Bogadóttur borgarskjalavörð "Síðdegisútvarpið - 1. hluti. 14. mars 2014".
Viðtal við Eirík G. Guðmundsson þjóðskjalavörð:  "Síðdegisútvarp - 1. hluti 18. mars 2014".

 

Síða 1 af 2

«FyrstaFyrri12NæstaSíðasta»

Umdæmi héraðsskjalasafna

Borði

Tengdu á okkur

Borði
Senda á Facebook
Borði
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi
Höfundarréttur © 2014 hs.bkdata.net. Öll réttindi áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL leyfi.