Borði

Lagafrumvarp um skjalasöfn gagnrýnt

Síðast uppfært: Miðvikudagur, 26. mars 2014 14:35 Miðvikudagur, 26. mars 2014 14:14

Félag héraðsskjalavarða á Íslandi og meirihluti héraðsskjalavarða hver um sig hafa ritað umsagnir um frumvarp til laga um opinber skjalasöfn. Allar umsagnir og greinargerðir um frumvarpið sem sendar hafa verið Alþingi má sjá á vef Alþingis.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið ritaði 10. mars greinargerð til menntamálanefndar Alþingis með tillögum að breytingum á frumvarpinu með hliðsjón af framkomnum athugasemdum. Vegna greinargerðarinnar var héraðsskjalaverði Kópavogs falið af stjórn Félags héraðsskjalavarða að gera athugasemdir við hana og voru þær sendar menntamálanefnd 25. mars sl. Er þar samráðsleysi ráðuneytisins við héraðsskjalaverði átalið og bent á ýmsa galla við frumvarpið og tillögur ráðuneytisins sem virðast helgast af ókunnugleika um starfsemi skjalavörslustofnana.

Í umsögn félagsins og athugasemdum við greinargerð ráðuneytisins eru gerðar alvarlegar athugasemdir sem snúast m.a. um stjórnarskrárbundið sjálfstæði sveitarfélaga, of langvarandi leynd eftir geðþótta skjalavarða (110 ár), of óskýr ákvæði um eyðingu skjala undir einræði eins manns - sem getur komið niður á upplýsingarétti, ósveigjanlegan afhendingarfrest opinberra skjala fastbundinn við 30 ár, gallaðar hugtakaskilgreiningar, óskýrleika og ójafnvægi milli aðalatriða og aukaatriða og að texti lagafrumvarpsins er of langur.

Frumvarpstextinn er flestum ofviða vegna þess að hann er of tæknilegur og flækjustigið mikið og jafnvel meira en frumvarpssmiðirnir hafa ráðið við. Ekki er þar síst um að kenna breytingum með nýlegum upplýsingalögum sem miðast við að upplýsingaréttur til skjala hins opinbera sem eru 30 ára og yngri falli undir þau, en þrítug og eldri skjöl falla undir skjalasafnalög. Áður var upplýsingaréttur að mestu í einum lögum.

Þjóðskjalavörður og héraðsskjalaverðir eru sammála um mikilvægi varðveislu persónuupplýsinga við að gæta réttinda borgaranna. Sést sá samhljómur af umfjöllun héraðsskjalavarðar Kópavogs hér á vefnum 28. febrúar sl. og greinargerð þjóðskjalavarðar til allsherjarnefndar Alþingis 11. mars sl.
Í því samhengi er rétt að leggja áherslu á að opinberum skjalavörslustofnunum, þ.e. Þjóðskjalasafni og héraðsskjalasöfnum, er ekki ætlað að verja hagsmuni stjórnvalda fremur en almennings.  Þeim er ætlað að hafa eftirlit með skjalavörslu stjórnvalda, taka skjöl þeirra til langtímavarðveislu og veita aðgengi að þeim skv. lögum og vernda með því rétt borgaranna til skjala, en jafnframt gæta þess að hindra óviðkomandi aðgengi að viðkvæmum persónuupplýsingum skv. lögum.

Forsætisráðuneytið og mennta-og menningarmálaráðuneyti hafa komið því svo fyrir að dönsk löggjöf er einkum höfð til hliðsjónar við smíði upplýsingalaga og laga um skjalasöfn. Af öllum Norðurlöndunum þykir Danmörk hafa afturhaldssamasta og þrengsta skjalaréttinn. Sjá t.d. hér um það. Áður hafa héraðsskjalaverðir gert ítrekaðar athugasemdir við frumvarp til upplýsingalaga m.a. vegna meðfylgjandi breytinga á lögum um Þjóðskjalasafn nr. 66/1985, en frumvarpinu  til laga um opinber skjalasöfn er ætlað leysa þau af hólmi.

Einnig hafa héraðsskjalaverðir áður gert athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um opinber skjalasöfn, en átt lítinn hljómgrunn fyrir fagleg viðhorf sín hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Opinber umfjöllun í fjölmiðlum um þetta mál hefur verið lítil og er það í engu samræmi við þjóðfélagslegt mikilvægi þess.

Útvarp Saga hefur þó gert málinu góð skil og má finna þá umfjöllun hér á vefsíðu Útvarps Sögu.
Viðtal við mennta- og menningarmálaráðherra "Síðdegisútvarp - 2. hluti 13. mars 2014" á mínútu 29:40.
Viðtal við Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörð Kópavogs og Svanhildi Bogadóttur borgarskjalavörð "Síðdegisútvarpið - 1. hluti. 14. mars 2014".
Viðtal við Eirík G. Guðmundsson þjóðskjalavörð:  "Síðdegisútvarp - 1. hluti 18. mars 2014".

 

Rétturinn til þess að falla í gleymsku

Síðast uppfært: Föstudagur, 28. febrúar 2014 15:37 Laugardagur, 22. febrúar 2014 17:35

Í umræðum að undanförnu í tengslum við lagafrumvarp um skjalasöfn á Íslandi hefur borið á góma nýlegt deiluefni utan úr heimi, en það er „rétturinn til þess að falla í gleymsku“. Ekki hefur mikið verið fjallað um þetta hérlendis nema hérna á vefsíðu félagsins: Tjón á arfleifð Evrópu í nafni réttar til að falla í gleymsku. Fyrir áhugasama sem vilja glöggva sig á þessu á netinu heitir þetta á þýsku Das Recht auf Vergessenwerden og á ensku The Right to be Forgotten.

Nú hafa jafnvel komið fram skoðanir hérlendis á þann veg að rétt sé að einkunnir grunnskólabarna varðveitist ekki á skjalasöfnum, en skuli eytt. Kemur þetta spánskt fyrir sjónir því héraðsskjalasöfn hafa þurft að gefa út staðfest afrit af einkunnum úr grunnskólum til handa fólki sem hefur þurft að leita atvinnuréttinda og atvinnu hér heima sem erlendis. Mikilvægi varðveislu þessa er ótvírætt fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut og skyldur stjórnvalda jafnframt ótvíræðar að tryggja þá varðveislu.

Auðkennagreining á persónum (Profiling), stórgagnasöfn (Big Data) og hlutkennslanetið (Internet of Things) er m.a. það sem vekur áhyggjur og veldur þessari umræðu. Áhyggjur af réttinum til einkalífs og friðhelgi þess er það sem hangir á spýtunni.

Samtenging tiltölulega saklausra upplýsinga getur leitt til þess að hægt sé að fá mið á einstaklinga og hópa einstaklinga í markaðssetningu, við áróður og jafnvel ofsóknir. Samtenging á skjalasöfnum stjórnvalda í tölvukerfum er hluti af þessum áhyggjum t.d. að hægt sé á einum stað að leita þvert á valdmörk stjórnvalda eftir kennitölum einstaklinga og fá fram allt um samskipti eins einstaklings við ólík stjórnvöld. Mikilsvert er að kerfi stjórnvalda séu ekki samtengd með þessum hætti. Þetta hefur ekki hlotið viðhlítandi opinbera umræðu hérlendis.

„Rétturinn til þess að falla í gleymsku“ og „hið stafræna strokleður“ eru hugmyndir sem sprottnar eru af þessum áhyggjum, en fela sumpart í sér glámskyggni og skammsýni gagnvart því að hluti einkalífs og friðhelgi þess er minnið. Mannlíf án tíma og sögu er ekki til. Persónuvernd er ekki til án mannlífs og vitnisburðar um það. Mikilsvert er að hafa hugfast að ofsóknir á hendur fólki af ýmsu tagi og jafnvel útrýming þess hefur jafnan falið í sér útþurrkun á upplýsingum um það. Eyðing skjala í persónuverndarskyni er varhugaverð í því ljósi. Þar kemur til réttur fólks til að vita um sjálft sig og eiga sér sjálfsvitund og samsömun (identity), útþurrkun á upplýsingum kann að fela í sér aðför að því. Stjórnvöld ættu ekki að geta komið sér undan ábyrgð á gjörðum sínum með eyðingu skjala. Hömlur á birtingu á opinberum upplýsingum um einstaklinga kunna og að fela í sér skerðingu á tjáningarfrelsi.

Hugmyndir um þessi efni er hægt að rekja aftur til fornaldar, hugmyndir um að skrifa söguna í stjörnurnar með stjörnumerkjunum til eilífrar endurminningar eru t.d. ævafornar og angi af þessu. Minnismerki sem hugmynd er því skyld, en jafnframt hugmyndir um lærdóma af sögunni, Erinnerungskultur og Geschichtskultur (minningamenning og sögumenning) er þetta kallað á þýsku. Ekki má heldur gleyma hugmyndum um að afmá fólk úr sögunni, bæði einstaklinga og hópa, m.a. sem einhverskonar refsingu eða til þess að berja niður skoðanir og hugmyndir, stundum kallað damnatio memoriae. Vélvæðing gagna frá því á 19. öld til okkar tíma hefur skapað ný sjónarhorn á þetta og ekki síst tilkoma netsins.

Á ársráðstefnu Alþjóða skjalaráðsins (ICA-International Council on Archives) 2013 sem bar yfirskriftina „Ábyrgð, gagnsæi og aðgengi að upplýsingum“ var þetta efni tekið til umfjöllunar í tengslum við misheppnað frumvarp til stefnu Evrópusambandsins um persónuvernd.

Fleiri en 51.000 undirskriftir skjalavarða, fræðimanna og borgara urðu til þess að frumvarpinu var vísað frá til endurskoðunar. Það byggðist á „réttinum til þess að gleymast“ og átti m.a. að tryggja að einstaklingstengdum gögnum í málsskjölum stjórnvalda ætti að eyða innan ákveðins tímafrests. Afleiðingarnar voru vanhugsaðar: Vinnutímaskýrslur til útreiknings eftirlauna hefðu ekki varðveist, gögn um margar kynslóðir í rannsóknum á ástæðum Alzheimers hefðu vegna eyðingar á sjúkraskýrslum ekki verði framkvæmanlegar.

Skjalavörslustofnanir hafa sýnt og sannað ábyrga umgengni við gögn varðandi einstaklinga og haft í heiðri persónuverndandi aðgengislög og -reglur. Skjalaeyðing á hinn bóginn skerðir ekki aðeins réttindi hlutaðeigandi einstaklinga sem vilja ekki gleymast, heldur hefur grundvallaráhrif á réttindi borgarans „citoyen“ til upplýsinga, eins og Félag franskra skjalavarða hefur bent á. Belgíski sérfræðingurinn um persónuvernd Willem Debeuckelaere kallaði gögn sem varðveitt væru „af virðingu“ vera „fjársjóðshirslu lýðræðisins“. Frumvarpið hefur verið tekið til endurskoðunar og verður í fyrsta lagi tekið aftur til meðferðar innan Evrópusambandsins árið 2015.

H.S.

 

 

Ljósmyndasafn Akraness

Síðast uppfært: Mánudagur, 16. desember 2013 13:02 Föstudagur, 13. desember 2013 11:54

her_akranes_ljosmyndasafn

12. desember var ljósmynd nr. 40.000 sett á vef Ljósmyndasafns Akreness en myndin er frá litlu jólunum í Barnaskóla Akraness árið 1973.

Stöðugt bætist við þær upplýsingar sem skráðar eru á vefinn, bæði af starfsmönnum ljósmyndasafnsins og eins berast ábendingar frá þeim sem skoða vefinn. Safnið nýtur stuðnings fjölda fólks sem skoðar vefinn reglulega og sendir inn upplýsingar.

Hlutverk Ljósmyndasafns Akraness er að safna, skrá og varðveita ljósmyndaefni svo sem ljósmyndir, glerplötur, filmur, og skyggnur sem og önnur gögn og skjöl sem tengjast greininni og hafa menningarsögulegt gildi og varpa ljósi á sögu Akraness.Safnið var stofnað 28. desember 2002 í tilefni af 60 ára afmæli kaupstaðarins. Fyrsta framlag til safnsins kom frá feðgunum Helga Daníelssyni og Friðþjófi Helgasyni en við stofnun safnsins afhentu þeir hluta af ljósmyndaverkum sínum jafnframt sem undirritað var samkomulag um að þeir afhentu safninu allar ljósmyndir sínar og filmur í fyllingu tímans. Söfn fjölda ljósmyndara eru nú varðveitt á ljósmyndasafninu.

Safnið tekur við og varðveitir efni frá fyrirtækjum, stofnunum og einkaðilum sé þess óskað.

Ljósmyndasafn Akraness hefur jafnframt það hlutverk að festa samtímasögu kaupstaðarins á mynd sem og að afla skipulega heimildaljósmynda um sögu hans.

 

 

15.000 nýjar myndir

Síðast uppfært: Föstudagur, 08. nóvember 2013 10:41 Föstudagur, 08. nóvember 2013 10:17

her_arn_2003_42_rh_06358
Vígsla Hveragerðiskirkju 14. maí 1972. Ragna Hermannsdóttir ljósmyndari.

Starfsmenn á Héraðsskjalasafni Árnesinga hafa ekki setið með hendur í skauti undanfarið. Á Safnahelginni á Suðurlandi voru 15.000 ljósmyndir settar á vefsíðu skjalasafnsins, myndasetur.is. Nú eru rúmlega 60.000 ljósmyndir á vefnum, flestar teknar í Árnessýslu og á Suðurlandi.

Þetta er hluti af samstarfsverkefni héraðsskjalasafnanna á Egilsstöðum, Sauðárkróki og Selfossi en verkefnið er styrkt af Alþingi/Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Sveitarfélagið Árborg og Menningarráð Suðurlands hafa einnig styrkt verkefnið rausnarlega í Árnesþingi.

Nú voru myndir frá Rögnu Hermannsdóttur ljósmyndara í Hveragerði settar á vefinn. Ragna fæddist á Stóruvöllum í Bárðardal. Hún fór 18 ára gömul í Garðyrkjuskólann á Reykjum. Ragna ferðaðist mikið um landið ásamt manni sínum Hannesi Arngrímssyni og fékk þá áhuga á ljósmyndun. Hún lærði ljósmyndun við amerískan bréfaskóla 1972-1974. Myndir Rögnu, sem skipta þúsundum, er skemmtilegur vitnisburður um þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað í Hveragerði frá því um 1970

Þá voru fleiri myndir frá Sigurði Jónssyni fyrrv. fréttaritara Morgunblaðsins settar á vefinn en yfir 15.000 myndir úr safni Sigurðura eru nú á vefnum.

her_arn_2013_10_oe_08103

Sigurður Grétar Ottósson og Óli Kristinn Ottósson að leika sér í fótbolta. Ljósmyndari Ottó Eyfjörð.

Flestar þeirra mynda sem nú voru settar eru úr safni Ottó Eyfjörð frá Hvolsvelli. Ottó fæddist í Vestmannaeyjum en flutti að Skammbeinsstöðum í Holtahreppi 11 ára gamall með móður sinni og yngri bróður. Ottó var bílstjóri hjá Kaupfélagi Rangæinga í 50 ár, keyrði vörubíl og fóðurbíl. Á ferðum sínum tók Ottó mikinn fjölda mynda af mannlífi í Rangarvalla- og Árnessýslum. Ottó endurvann einnig mikið af gömlum ljósmyndum, handmálaði myndir, framkallaði og stækkaði. Nú voru 8.500 myndir frá Ottó settar á vefinn. Ætla má að safn Ottó sé liðlega 30.000 ljósmyndir.

 

Umdæmi héraðsskjalasafna

Borði

Tengdu á okkur

Borði
Senda á Facebook
Borði
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi
Höfundarréttur © 2014 hs.bkdata.net. Öll réttindi áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL leyfi.