Borði

Nýr héraðsskjalavörður Skagfirðinga

Síðast uppfært: Föstudagur, 12. september 2014 13:02 Föstudagur, 12. september 2014 12:55

Sólborg Una Pálsdóttir tók til starfa sem nýr héraðsskjalavörður Skagfirðinga nú í ágúst.  Hún er sagnfræðingur frá Háskóla Ísland. Árið 2003 útskrifaðist hún með MSc. gráðu í upplýsingatækni í fornleifafræði (Archaeological information System) frá Háskólanum í York og hefur einnig sótt fjölmörg námskeið um upplýsingakerfi, uppbyggingu gagnagrunna o.fl


Síðustu ár hefur Sólborg starfað hjá Minjastofnun (áður Fornleifavernd) við stöðlun, skráningu og miðlun upplýsinga um fornleifar á Íslandi. Þá hefur hún reynslu að skráningu muna og fornleifa í gangagrunna og hefur haldið fjölda fyrirlestra og ritað greinar um sagnfræðileg og fornleifafræðileg efni.


Sólborg er boðin velkomin til starfa og Unnari Ingvarssyni, sem hefur snúið sér að öðru eftir 14 ára farsælt starf sem héraðsskjalavörður Skagfirðinga, er þakkað ánægjulegt og gefandi samstarf.

 

Ný lög um opinber skjalasöfn

Síðast uppfært: Föstudagur, 12. september 2014 13:01 Fimmtudagur, 26. júní 2014 14:31

lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn hafa verið sett nú í maí og leysa af hólmi lög nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og að nokkru upplýsingalög nr. 50/1996, en með nýjum upplýsingalögum nr. 140/2012 var tekin sú ákvörðun að danskri fyrirmynd að skipta löggjöf um upplýsingarétt á milli upplýsingalaga og laga um opinberar skjalavörslustofnanir. Hefur því verið haldið fram að með þessu myndist "heildstæðari rammi um upplýsingarétt almennings" sem vekur undrun því tvenn lög eru tæplega heildstæðari en ein. 

Hin nýju lög um opinber skjalasöfn hafa í för með sér ýmsar breytingar er varða skjalavörslu sveitarfélaga og stöðu héraðsskjalasafna.

Í nýju lögunum er beinlínis kveðið á um að héraðsskjalasafn sé sjálfstætt opinbert skjalasafn og að það skuli hafa eftirlit með með skjalavörslu þeirra aðila sem eru afhendingarskyldir þangað um skjöl sín. Skv. hinum eldri lögum nr. 66/1985 var sjálfstæði héraðsskjalasafna aðeins á grundvelli reglugerðar og eftirlitshlutverkið framselt héraðsskjalasöfnum af Þjóðskjalasafni Íslands. Sérstaða þeirra og sjálfstæði að lögum hefur því aukist frá því sem áður var.

Umdeilt er hvort afhendingarskylda til héraðsskjalasafna hefur aukist eða minnkað við þær lagabreytingar sem hafa átt sér stað með upplýsingalögum nr. 140/2012 og þessum nýju lögum, vegna ágreinings um túlkun hinna fyrri laga nr. 66/1985. Skýrari viðmið um eignarhald skilgreina nú afhendingarskylduna. 

Sérstakar refsiheimildir eru komnar í lögin er varða þagnarskyldu og vanrækslu á vörslu skjala en áður varð aðeins byggt á almennum hegningarlögum hvað varðaði tjón á eigum hins opinbera þegar skjöl voru annars vegar.

Ákvörðunarvald um eyðingu opinberra skjala er nú aðeins í höndum þjóðskjalavarðar en var áður í höndum fjölskipaðs stjórnvalds, stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns Íslands og þar áður háð samþykki landsstjórnarinnar. Stjórnarnefndin fer ekki lengur með yfirstjórn Þjóðskjalasafnsins og er nú þjóðskjalaverði aðeins til ráðgjafar.

Staða Þjóðskjalasafns Íslands og skjalavörsluskyldu hefur veikst að því leyti að Alþingi og umboðsmaður Alþingis lúta nú ekki lengur lögum um opinbera skjalavörslu og skjalavarsla þeirra er ekki bundin neinni löggjöf. Skjalavarsla löggjafarsamkomunnar er því laus undan lögum. T.d. kemur ekki skýrt fram í lagatextanum hvort ríkisendurskoðun, sem er ein stofnana Alþingis eigi að lúta þessari löggjöf.

Lögin hafa að geyma meiri texta en fyrri löggjöf. Þau eiga sér nokkurn aðdraganda, en heildarendurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands hófst með því að menntamálaráðherra skipaði starfshóp um hana 24. september 2008 og drög laganna voru sett í almennt umsagnarferli í desember 2010, þá fyrst höfðu héraðsskjalaverðir tækifæri til að koma faglegum sjónarmiðum sínum að. Djúpstæður ágreiningur hefur verið um ýmsa þætti laganna sem snerta fagleg efni, almannahag og upplýsingaöryggi eins og hefur komið fram áður á þessum vef. Sumt í hinum nýju lögum er óneitanlega til bóta, en ljóst er að betur hefði mátt standa að undirbúningi lagasetningarinnar með samstarfi við héraðsskjalasöfnin þegar í upphafi. Lögin eru ekki gallalaus, en eftir þeim starfa opinber skjalasöfn nú.

 

Alþjóðlegi skjaladagurinn 2014

Síðast uppfært: Þriðjudagur, 10. júní 2014 01:20 Mánudagur, 09. júní 2014 17:46

Mánudaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn sem skjalasöfn um allan heim taka þátt í með einum eða öðrum hætti. Á þessum degi er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á Íslandi taka héraðsskjalasöfn landsins þátt í deginum að vanda. Daginn ber upp á annan í hvítasunnu að þessu sinni og mun því Félag héraðsskjalavarða á Íslandi standa fyrir málþingi fyrir starfmenn héraðsskjalasafna miðvikudaginn 11. júní. Gagnger endurskoðun á vefsíðu félagsins stendur yfir þessa dagana og er stefnt að því að henni ljúki hið fyrsta.

Um Alþjóðlega skjaladaginn á vef Alþjóða skjalaráðsins.

Vefur Alþjóðlega skjaladagsins 2014.

Héraðsskjalasöfnin eru tuttugu talsins um land allt. Meginhlutverk þeirra er að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Jafnframt taka þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnasvæðinu. Héraðsskjalasöfnin varðveita því söguna heima í héraði og gegna margvíslegu menningarlegu og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint er í lögum.

 

Ljósmyndavefur Austfirðinga

Mánudagur, 09. júní 2014 17:37

Í maílok 2014 hleypti Héraðsskjalasafn Austfirðinga af stokkunum ljósmyndavef á þessari slóð myndir.heraust.is.

Á vefnum eru um 55 þúsund myndir í eigu Ljósmyndasafns Austurlands, sem er sérstök deild innan Héraðsskjalasafnsins. Þar er hægt að skoða fjölbreytt myndasöfn allt frá mannamyndum teknum fyrir aldamótin 1900 til frétta- og íþróttamynda frá síðari helmingi 20. aldar.

Vefurinn er afrakstur sérstaks átaksverkefnis um skönnun og skráningu ljósmynda sem hefur staðið yfir frá árinu 2011 með sérstökum styrk frá ríkissjóði, Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi og fleiri aðilum.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga.

Heildarfjöldi mynda hjá Ljósmyndasafni Austurlands er um 80 þúsund og sífellt bætist við safnið. Myndum á ljósmyndavefnum á því eftir að fjölga enn frekar eftir því sem fjármagn fæst í verkefnið.

 

Rétturinn til þess að falla í gleymsku

Síðast uppfært: Föstudagur, 28. febrúar 2014 15:37 Laugardagur, 22. febrúar 2014 17:35

Í umræðum að undanförnu í tengslum við lagafrumvarp um skjalasöfn á Íslandi hefur borið á góma nýlegt deiluefni utan úr heimi, en það er „rétturinn til þess að falla í gleymsku“. Ekki hefur mikið verið fjallað um þetta hérlendis nema hérna á vefsíðu félagsins: Tjón á arfleifð Evrópu í nafni réttar til að falla í gleymsku. Fyrir áhugasama sem vilja glöggva sig á þessu á netinu heitir þetta á þýsku Das Recht auf Vergessenwerden og á ensku The Right to be Forgotten.

Nú hafa jafnvel komið fram skoðanir hérlendis á þann veg að rétt sé að einkunnir grunnskólabarna varðveitist ekki á skjalasöfnum, en skuli eytt. Kemur þetta spánskt fyrir sjónir því héraðsskjalasöfn hafa þurft að gefa út staðfest afrit af einkunnum úr grunnskólum til handa fólki sem hefur þurft að leita atvinnuréttinda og atvinnu hér heima sem erlendis. Mikilvægi varðveislu þessa er ótvírætt fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut og skyldur stjórnvalda jafnframt ótvíræðar að tryggja þá varðveislu.

Auðkennagreining á persónum (Profiling), stórgagnasöfn (Big Data) og hlutkennslanetið (Internet of Things) er m.a. það sem vekur áhyggjur og veldur þessari umræðu. Áhyggjur af réttinum til einkalífs og friðhelgi þess er það sem hangir á spýtunni.

Samtenging tiltölulega saklausra upplýsinga getur leitt til þess að hægt sé að fá mið á einstaklinga og hópa einstaklinga í markaðssetningu, við áróður og jafnvel ofsóknir. Samtenging á skjalasöfnum stjórnvalda í tölvukerfum er hluti af þessum áhyggjum t.d. að hægt sé á einum stað að leita þvert á valdmörk stjórnvalda eftir kennitölum einstaklinga og fá fram allt um samskipti eins einstaklings við ólík stjórnvöld. Mikilsvert er að kerfi stjórnvalda séu ekki samtengd með þessum hætti. Þetta hefur ekki hlotið viðhlítandi opinbera umræðu hérlendis.

„Rétturinn til þess að falla í gleymsku“ og „hið stafræna strokleður“ eru hugmyndir sem sprottnar eru af þessum áhyggjum, en fela sumpart í sér glámskyggni og skammsýni gagnvart því að hluti einkalífs og friðhelgi þess er minnið. Mannlíf án tíma og sögu er ekki til. Persónuvernd er ekki til án mannlífs og vitnisburðar um það. Mikilsvert er að hafa hugfast að ofsóknir á hendur fólki af ýmsu tagi og jafnvel útrýming þess hefur jafnan falið í sér útþurrkun á upplýsingum um það. Eyðing skjala í persónuverndarskyni er varhugaverð í því ljósi. Þar kemur til réttur fólks til að vita um sjálft sig og eiga sér sjálfsvitund og samsömun (identity), útþurrkun á upplýsingum kann að fela í sér aðför að því. Stjórnvöld ættu ekki að geta komið sér undan ábyrgð á gjörðum sínum með eyðingu skjala. Hömlur á birtingu á opinberum upplýsingum um einstaklinga kunna og að fela í sér skerðingu á tjáningarfrelsi.

Hugmyndir um þessi efni er hægt að rekja aftur til fornaldar, hugmyndir um að skrifa söguna í stjörnurnar með stjörnumerkjunum til eilífrar endurminningar eru t.d. ævafornar og angi af þessu. Minnismerki sem hugmynd er því skyld, en jafnframt hugmyndir um lærdóma af sögunni, Erinnerungskultur og Geschichtskultur (minningamenning og sögumenning) er þetta kallað á þýsku. Ekki má heldur gleyma hugmyndum um að afmá fólk úr sögunni, bæði einstaklinga og hópa, m.a. sem einhverskonar refsingu eða til þess að berja niður skoðanir og hugmyndir, stundum kallað damnatio memoriae. Vélvæðing gagna frá því á 19. öld til okkar tíma hefur skapað ný sjónarhorn á þetta og ekki síst tilkoma netsins.

Á ársráðstefnu Alþjóða skjalaráðsins (ICA-International Council on Archives) 2013 sem bar yfirskriftina „Ábyrgð, gagnsæi og aðgengi að upplýsingum“ var þetta efni tekið til umfjöllunar í tengslum við misheppnað frumvarp til stefnu Evrópusambandsins um persónuvernd.

Fleiri en 51.000 undirskriftir skjalavarða, fræðimanna og borgara urðu til þess að frumvarpinu var vísað frá til endurskoðunar. Það byggðist á „réttinum til þess að gleymast“ og átti m.a. að tryggja að einstaklingstengdum gögnum í málsskjölum stjórnvalda ætti að eyða innan ákveðins tímafrests. Afleiðingarnar voru vanhugsaðar: Vinnutímaskýrslur til útreiknings eftirlauna hefðu ekki varðveist, gögn um margar kynslóðir í rannsóknum á ástæðum Alzheimers hefðu vegna eyðingar á sjúkraskýrslum ekki verði framkvæmanlegar.

Skjalavörslustofnanir hafa sýnt og sannað ábyrga umgengni við gögn varðandi einstaklinga og haft í heiðri persónuverndandi aðgengislög og -reglur. Skjalaeyðing á hinn bóginn skerðir ekki aðeins réttindi hlutaðeigandi einstaklinga sem vilja ekki gleymast, heldur hefur grundvallaráhrif á réttindi borgarans „citoyen“ til upplýsinga, eins og Félag franskra skjalavarða hefur bent á. Belgíski sérfræðingurinn um persónuvernd Willem Debeuckelaere kallaði gögn sem varðveitt væru „af virðingu“ vera „fjársjóðshirslu lýðræðisins“. Frumvarpið hefur verið tekið til endurskoðunar og verður í fyrsta lagi tekið aftur til meðferðar innan Evrópusambandsins árið 2015.

H.S.

 

 

Síða 1 af 2

«FyrstaFyrri12NæstaSíðasta»

Umdæmi héraðsskjalasafna

Borði

Tengdu á okkur

Borði
Senda á Facebook
Borði
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi
Höfundarréttur © 2015 hs.bkdata.net. Öll réttindi áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL leyfi.