Borði

Átak um skjöl íþróttafélaga

fel_her_isi_2012_4_18_1

Á blaðamannafundi er haldinn var um átakið í Borgarskjalasafni Reykjavíkur 18. apríl 2012. F.v. Þorsteinn Tryggvi Másson héraðsskjalavörður Árnesinga, Birna Mjöll Sigurðardóttir héraðsskjalavörður Mosfellsbæjar, Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður Reykjavíkur, Ólafur Rafnsson formaður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður Kópavogs og Örn Andrésson formaður afmælisnefndar ÍSÍ.

 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fagnar í ár 100 ára afmæli sínu með ýmsum hætti.

Í dag, 18. apríl 2012 eru 100 dagar í Ólympíuleikana, stærsta íþróttaviðburð í heiminum, mikil saga tengist leikunum en Íslendingar kepptu þar fyrst árið 1908 í glímu. Í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur sambandið og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi hafið samstarf um söfnun og skráningu á skjölum íþróttafélaga og íþróttatengdum skjölum s.s. sendibréfum, ljósmyndum, myndböndum, fundargerðum, mótaskrám, félagaskrám, bókhaldi, og merkjum.

Í skjalasöfnum íþróttafélaganna felst vitnisburður um starfsemi þeirra í frumheimildum; hvaða hugsjónir voru að baki, um baráttu, þrotlausar æfingar til að ná árangri, töp og glæsta sigra, dugnað og elju einstaklinga við uppbyggingu félaganna, oft í ólaunuðu sjálfboðaliðastarfi. Mikilvægt er að skjalasöfn íþróttafélaganna glatist ekki, heldur séu varðveitt tryggilega og aðgengilega á skjalasöfnum landsins.

Formaður ÍSÍ fylgdi átakinu úr hlaði með hvatningarorðum og fjallaði m.a. um mikilvægi þess að vel sé haldið utan um skjöl í hita leiksins og dagsins önn hjá íþróttafélögum, þau beri í sér sögu þeirra sem á eftir koma. Einnig benti hann á mikilvægi þess að skjölin væru aðgengileg í opinberum skjalavörslustofnunum.

fel_her_isi_2012_4_18_4fel_her_isi_2012_4_18_3

Héraðsskjalavörður Kópavogs fjallaði um elstu félagasamtök Íslendinga sem kunnugt er um, fyrst þekkt í kringum árið 1680, sem hétu Sakir og var félag íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn. Rituð lög félagsins eru til frá árinu 1760 og mun Eggert Ólafsson hafa haldið þar á penna. Í 59. grein þessara laga segir:
"Vér skulum eiga leika á Amager eyju tvisvar á sumri hverju. Ráða skal öldungur [formaður] nær haldast skulu. Ráða skal hann og hvað leika skal. Skyldur er hann þá hætt er komið þessum leikum að leiða þá alla er að leiknum voru inn á öldurhús eitt og skjóta [borga] einn þar, þá erat [er ekki] hann skyldur  meiru til að skjóta en alin næmi fyrir hvern þeirra. Erat [er ekki] hann þess skyldur þótt oftar sé leikið. Allir skulu þar leika sækja enda má þeim engi sá frá vera að eigi hafi hann öldungs [formanns] lof að því."

Fleira er ekki kunnugt um þessa íþróttaiðkun enda ekkert fleira skjalfest til um hana. En það að halda mönnum að hreyfingunni með því að láta formanninn bjóða upp á drykki er býsna ólíkt þeirri íþróttahreyfingu sem reis meðal Íslendinga á 19. öld og í upphafi 20. aldar. Ekki var þetta sérstaklega íþróttafélag, en þetta er rifjað upp með þá spurningu í huga hvernig menn muni geta aflað sér vitnisburðar um íþróttaiðkun og starfsemi íþróttafélaga eftir 250 ár? Þessi fróðleiksmoli er í fundargerðabók sem er varðveitt í Bodleian Library í Oxford. Því er mikilvægt að stuðlað sé að því að skjöl íþróttafélaga og um íþróttaiðkun séu varðveitt á aðgengilegan hátt í heimabyggð.

Hvatt var til þess á blaðamannafundinum að gætt væri að daglegu skjalahaldi hjá íþróttafélögunum, m.a. með það í huga að skjalasöfnum frjálsra félagasamtaka væri nokkur hætta búin vegna hins þjála vinnsluvæna rafræna forms, því oft gleymist að koma gögnum á varðveitanlegt form með útprentun.

fel_her_isi_2012_4_18_2

Magnús Ólafsson formaður minjanefndar Vals og Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður

Íþróttafélagið Valur afhenti Borgarskjalasafni til varðveislu skjöl og sýnd voru skjöl frá Héraðsskjalasafni Árnesinga og Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar, m.a. íþróttamótabók ungmennafélaganna Aftureldingar og Drengs, glæsilegur gripur sem búið er um í útskornum trékassa sem er handarverk Ríkarðs Jónssonar, en einnig kringla og sjö kílóa kúluvarpskúla sem viðstaddir skjalaverðir handléku kvíðafullir, minnugir þess að nýlega var auglýst eftir skjalaverði til starfa hjá Alþjóðabankanum og m.a. var umsóknarskilyrði að geta lyft 7 kílóum.

Íþróttahreyfingin og héraðsskjalasöfnin taka nú höndum saman og hvetja bæði forsvarsmenn íþróttafélaga, íþróttahéraða og þá aðila sem hafa unnið í íþróttahreyfingunni að líta upp á háaloft eða í kassann í kjallaranum og koma því á réttan stað. Helsta markmið með þessu átaki er að gögnin séu skráð vel og varðveitt á öruggum stað.

Héraðsskjalasöfnin 20 á Íslandi, eru sjálfstæðar skjalavörslustofnanir á vegum sveitarfélaga. Alls eru 25 íþróttahéruð á landinu, eða 7 íþróttabandalög og 18 héraðssambönd. Íþróttafélög og þeir sem hafa undir höndum skjöl tengdum íþróttum, eru hvattir til að hafa samband við starfsmenn héraðsskjalasafna í byggðalagi sínu. Tengiliður ÍSÍ vegna verkefnisins er Hjördísi Guðmundsdóttir verkefnisstjóra hjá ÍSÍ.

Umdæmi héraðsskjalasafna

Borði

Tengdu á okkur

Borði
Senda á Facebook
Borði
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi

Heimasíður skjalasafna

Borði
Borði
Borði
Borði
Borði
Höfundarréttur © 2015 hs.bkdata.net. Öll réttindi áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL leyfi.