Borði

Fræðslufundur um varðveislu ljósmynda

Mánudaginn 21. nóvember síðastliðinn stóðu Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni og Ljósmyndasafn Reykjavíkur fyrir fræðslufundi um varðveislu ljósmyndasafna í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns.

Karen Brynjolf Pedersen forvörður við danska Þjóðminjasafnið (Nationalmuseet) flutti fyrirlesturinn Conservation strategies for photographic collections (forvörsluáætlanir fyrir ljósmyndasöfn) sem var afar fræðandi og vakti áheyrendur til umhugsunar um mikilvægi réttra aðferða og umbúnaðar í kringum ljósmyndir.

Við sama tækifæri var dreift handriti að leiðbeiningarritinu Varðveitum myndina. Leiðbeiningar um varðveislu á ljósmyndum og filmuefni. Höfundar ritsins eru Karen Brynjolf Pedersen (Nationalmuseet), Katja Rie Glud (Det Danske Filminstitut) og Ulla Kejser (Det Kongelige Bibliotek). María Karen Sigurðardóttir og Inga Lára Baldvinsdóttir snöruðu á íslensku. Er þessi útgáfa þarft framtak enda er nauðsynlegt starfsfólki safna að hafa góð leiðbeiningarrit handhæg við vinnu sína.

 

Þátttakendur fundarins komu frá á þriðja tug safna, þar af sex héraðsskjalasöfnum. Fengu þeir tækifæri til að vinna í hópum að gerð varðveisluáætlunar fyrir sín myndasöfn og reyndist sú vinna lærdómsrík. Þá voru fjögur ljósmyndatengd verkefni kynnt, Jóhanna Guðrún Árnadóttir verkefnisstjóri í Ljósmyndasafni Reykjavíkur talaði um reynslu þess af the Commons á Flickr, Unnar Ingvarsson héraðsskjalavörður Skagfirðinga talaði um ljósmyndaverkefni þriggja héraðsskjalasafna, Björn Pétursson safnstjóri Byggðasafns Hafnarfjarðar talaði um þátttöku þess í alþjóðaverkefninu PEEP, Promoting Early European photography, um kynningu á evrópskri ljósmyndun ásamt  Hereford Museum Resource and Learning Center, Swansea Waterfront Museum í Bretlandi, auk  Slovak Central Observatory Í Hurbanovo í Slóvakíu og að lokum kynnti Hallgerður Hallgrímsdóttir ljósmyndari og blaðamaður verkefni sem hún vinnur hjá Þjóðminjasafni um viðtöl við kvenljósmyndara 1970-1990.

Að erindunum loknum var orðið gefið frjálst og spunnust líflegar umræður um höfundarétt og þá einkum réttinn til eintakagerðar, varðveislu stafrænna mynda og innheimtu gjalda fyrir aðgengi að ljósmyndum á söfnunum svo fátt eitt sé nefnt. Ljóst er að margt brennur á safnafólki í þessum málaflokki og var forstöðumönnum Ljósmyndasafns Íslands og Ljósmyndasafns Reykjavíkur þeim Ingu Láru Baldvinsdóttur og Maríu Karen Sigurðardóttur þakkað frumkvæðið að fundinum. Var þeirri hugmynd afar vel tekið af viðstöddum að fundur safnafólks um þetta efni verði gerður að árlegum viðburði.

GMH

Umdæmi héraðsskjalasafna

Borði

Tengdu á okkur

Borði
Senda á Facebook
Borði
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi

Heimasíður skjalasafna

Borði
Borði
Borði
Borði
Borði
Höfundarréttur © 2015 hs.bkdata.net. Öll réttindi áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL leyfi.