Borði

Fræðsluganga Héraðsskjalasafns Kópavogs

Nærri 80 manns sóttu fræðslugöngu Héraðsskjalasafns Kópavogs um hernámsárin í Kópavogi undir leiðsögn Guðlaugs R. Guðmundssonar sagnfræðings sem farin var 19. júlí síðastliðinn.

her_kop_gudlaugur

Guðlaugur R. Guðmundsson bendir göngumönnum á slóðir herskálabyggðar breska hersins í botni Fossvogs.

Gengið var frá bílastæði Siglingastofnunar við Vesturvör í Kópavogi þar sem skoðaðar voru leifar af slipp fyrir flugbáta breska hersins í Marine Slipway. Þar voru þjónustaðir flugbátar af Catalina og Northrop gerð. Nokkrar þessara véla fórust og árið 2002 fannst flak Northrop N-3PB vélar í Skerjafirði, líklega þeirrar sem sökk 22. október 1942. Flugvélum af þessari gerð flaug norsk flugsveit á vegum RAF, breska flughersins, og sinnti kafbátaleit og eftirliti. Það var eina flugsveitin sem hafði þessar vélar í þjónustu sinni og er vél sem brotlenti og bjargað var úr Þjórsá 1979 og gerð upp, eina vélin sem til er af þessari gerð í heiminum. Hún er nú til sýnis í Noregi. Sveinn Þórðarson, sonur Þórðar Þorsteinssonar á Sæbóli, hreppstjóra í Kópavogshreppi, vann um árabil hjá Northrop verksmiðjunum í Kalíforníu í Bandaríkjunum.

Frá athafnasvæði Siglingastofnunar var gengið inn Fossvoginn í átt að Marbakka og Sæbóli. Þaðan sást vel yfir að vélbyssuhreiðri við Tjaldhól og klettinum Hanganda sem er eldra merki Kópavogsjarðarinnar við Reykjavík, en síðan 1930 liggja þau við Fossvogslæk. Frá brúnni yfir Fossvogslæk var gengið að síðasta húsinu sem enn stendur af Bournemouth Camp í landi Sæbóls, við Helgubraut 8. Húsráðandi þar tók hópnum vel og sagði sögur af húsinu, sem gegndi hlutverki bað- eða þvottahúss hjá breska hernum. Reykháfur hússins var þekkt kennileiti áður fyrr.

her_kop_gudlaugur2

Á göngustígnum fyrir neðan Sæból.

Þar lauk formlegri dagskrá en Hrafn Andrés Harðarson og Frímann Ingi Helgason minntu viðstadda á að til stendur að endurvekja Sögufélag Kópavogs með haustinu. Síðan gekk hópurinn sem leið liggur aftur að Siglingastofnun.

Vakti gangan almenna lukku og voru gestir ánægðir með framtakið. Án efa mun Héraðsskjalasafnið skipuleggja svona göngur oftar vegna þessara góðu viðbragða.

GMH


Umdæmi héraðsskjalasafna

Borði

Tengdu á okkur

Borði
Senda á Facebook
Borði
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi

Heimasíður skjalasafna

Borði
Borði
Borði
Borði
Borði
Höfundarréttur © 2015 hs.bkdata.net. Öll réttindi áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL leyfi.