Borði

Alþjóðlegi skjaladagurinn 2011 - öryggismálanámskeið


  
   

 

Í tilefni af Alþjóðlega skjaladeginum 9. júní 2011 hélt Félag héraðsskjalavarða námskeið fyrir starfsmenn héraðsskjalasafna um öryggismál í Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Í fyrra var Alþjóðlega skjaladeginum fagnað af hálfu félagsins með námskeiði fyrir starfsmenn héraðsskjalasafna um skjöl grunn- og leikskóla.

Alþjóðlegi skjaladagurinn er haldinn hátíðlegur um heim allan í tilefni af stofnun Alþjóða skjalaráðsins 9. júní 1948.

Hófst námskeiðið á fyrirlestri Svanhildar Bogadóttur borgarskjalavarðar um öryggismál sem byggðust um margt á reynslu Borgarskjalasafnsins. Fjallað var um mikilvægustu þætti öryggismála og var mjög fræðandi og gagnlegt þar sem Borgarskjalasafn er það skjalasafn á Íslandi sem er með hvað bestan viðbúnað í öryggismálum sínum.

Þá flutti  Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður Kópavogs fyrirlestur er fjallaði einkum um öryggismálaáætlanir og gerð þeirra og byggði þar á ýmsum erlendum ritum sem hann kynnti til sögu, en unnið er að undirbúningi slíkrar áætlunar í Kópavogi. Var þó víðar farið í fyrirlestrinum allt frá umfjöllun um Árna Magnússon skjalavörð og brunann í Kaupmannahöfn 1728, en sárari vöntun á rýmingaráætlun getur vart í Íslandssögunni, til þess að Ísland er ekki aðili að Haag sáttmálanum um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum frá 1954 sem hefur verið kjölfesta öryggismála stofnana er varðveita menningarverðmæti um alla Evrópu.

Hápunktur námskeiðsins var skemmtilegur og afar fræðandi fyrirlestur Eyþórs Víðissonar löggæslufræðings og öryggismálafræðings hjá VSI öryggishönnun og ráðgjöf þar sem fjallað var um forvarnir og viðbrögð við eldsvoða og öðrum ógnum er steðja kunna að skjalasöfnum, bæði safnkosti og starfsfólki.

Námskeiðinu lauk á fræðslu og æfingu í beitingu slökkvitækja og sýndu sækjendur námskeiðsins nokkra hreysti í að þrauka æfinguna í kalsasömum norðanvindi á hafnarbakkanum í Reykjavík.

Þáttakendur í námskeiðinu voru frá um helmingi héraðsskjalasafna á landinu, þeir sem ekki komust til Reykjavíkur voru tengdir fjarfundarbúnaði en urðu af verklega þættinum.

Umdæmi héraðsskjalasafna

Borði

Tengdu á okkur

Borði
Senda á Facebook
Borði
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi

Heimasíður skjalasafna

Borði
Borði
Borði
Borði
Borði
Höfundarréttur © 2015 hs.bkdata.net. Öll réttindi áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL leyfi.