Borði

Málstofa í Kópavogi

 

Á nýliðnum Kópavogsdögum stóð Héraðsskjalasafn Kópavogs fyrir málstofu um sögu Kópavogs. Var hún haldin á 56. afmælisdegi kaupstaðarréttinda Kópavogsbæjar, miðvikudaginn 11. maí. Í ár eru jafnframt liðin 63 ár síðan Kópavogur varð sjálfstætt sveitarfélag, það gerðist með stofnun Kópavogshrepps 1. janúar 1948.

Á málstofunni flutti Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður erindi Björns Þorsteinssonar fyrrv. bæjarritara sem lýsti sögu byggðar í landi Kópavogs frá því elstu heimildir greina frá á 13. öld fram á 20. öld. Lýsti hann m.a. framgangi réttvísinnar eins og hún birtist í dómum sem kveðnir voru upp og fullnægt á Kópavogsþingi fyrr á öldum. Björn vinnur nú að lokafrágangi rits um sögu Kópavogs og var erindi hans byggt á yfirlitskafla í því riti.

Gunnar Marel Hinriksson skjalavörður flutti fyrirlestur sinn „Lamblausar ær, mjög lasnar kýr og hestar að litlu liði“ um kvikfjártalið 1703, ástæður þess að það var tekið og hvernig það lýsir byggð á þeim jörðum Seltjarnarneshrepps hins forna sem þéttbýli Kópavogsbæjar stendur á, þ.e. Vatnsenda, Hvammkoti (síðar Fífuhvammur), Digranesi og Kópavogi.
Guðlaugur Rúnar Guðmundsson sagnfræðingur var síðastur á mælendaskrá og sagði hann í máli og myndum frá örnefnum í landi Kópavogs og sögur á bak við tilurð þeirra. Meðal þess sem fram kom í máli hans var að árið 1930 hafi bæjarstjórnin í Reykjavík samið um ný merki milli jarða Kópavogs og Reykjavíkur. Elstu heimildir greina frá því að áður hafi merkin legið frá Hangandakletti í Klofastein vestri á Fossvogslæk. Eftir breytinguna lágu merki úr Fossvogslækjarósi í Klofastein. Misstu þá Kópavogsmenn spón úr aski sínum því Fossvogslækjarós liggur nokkru sunnar en Hangandaklettur (sem er í fjörunni við botn Fossvogs, u.þ.b. andspænis göngubrúnni yfir Hafnarfjarðarveginn). Vakti þessi uppljóstrun athygli fundarmanna.

Fundarstjóri var Hrafn Andrés Harðarson bæjarbókavörður og stýrði hann líflegum umræðum sem spunnust eftir erindin. Einn fundarmanna, Frímann Ingi Helgason, stakk upp á því að í kjölfar þessa vel heppnaða málþings yrði stefnt á ný að stofnun Sögufélags Kópavogs. Félag með því nafni starfaði snemma á 9. áratugnum en það lagði upp laupana. Tóku gestir vel í hugmynd Frímanns Inga og verður spennandi að sjá hvort ekki rætist úr henni. Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður lýsti því hvernig skjalasafnið gæti veitt slíku félagi stuðning. Þess ber að geta að skv. 3. grein reglugerðar um héraðsskjalasöfn nr. 283/1994 skulu héraðsskjalasöfn „á allan hátt leitast við að varðveita og efla þekkingu á sögu síns umdæmis“ og því fer vel á því að héraðsskjalasöfn og héraðssögufélög eigi samleið.

GMH

Umdæmi héraðsskjalasafna

Borði

Tengdu á okkur

Borði
Senda á Facebook
Borði
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi

Heimasíður skjalasafna

Borði
Borði
Borði
Borði
Borði
Höfundarréttur © 2015 hs.bkdata.net. Öll réttindi áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL leyfi.