Borði

Bætt aðgengi að hljóð- og myndefni á Egilsstöðum

Síðastliðin tvö ár hefur verið gerð gangskör að því að bæta aðgengi safngesta að hljóð- og myndefni sem varðveitt er í Héraðsskjalasafni Austfirðinga og tryggja betur varðveislu þess með því að afrita efnið á stafrænt form. Þótt meginhlutverk skjalasafnsins sé að safna skjölum tekur safnið einnig við mynd- og hljóðefni sem snertir Austurland eða austfirska sögu og menningu.

Sumarið 2009 var efni á hljóðsnældum í vörslu safnsins fært yfir á starfrænt form. Efni þeirra er nú varðveitt á geisladiskum og í tölvukerfi safnsins (á mp3-formi) auk þess sem snældurnar eru varðveittar eftir sem áður. Mikill hluti efnisins fjallar með einum eða öðrum hætti um austfirska sögu og menningu og eru umfjöllunarefnin margvísleg, allt frá siglingum á Lagarfljóti til smábátaútgerðar á Seyðisfirði á stríðsárunum, svo dæmi séu tekin.

Efnisskrána má sjá hérna á heimasíðu Héraðsskjalasafns Austfirðinga

 

Fyrir rúmum áratug var Héraðsskjalasafninu afhent myndefni sem orðið hafði til við starfsemi Austfirska sjónvarpsfélagsins, sem starfaði á 9. og 10. áratug síðustu aldar, og síðar hjá útibúi Stöðvar 2 á Austurlandi. Þetta efni lá óhreyft í kössum í geymslu safnsins þar til á síðasta ári. Eftir yfirfærslu efnsins á stafrænt form rúmast það á 65 DVD-diskum sem flestir geyma um eða yfir 2 klukkustundir af myndefni. Samhliða yfirfærslunni var gerð vönduð og ítarleg efnisskrá yfir innihald diskanna. Það efni sem um ræðir er afar fjölbreytt en uppistaða þess er fréttaefni úr fjórðungnum, allt frá Hornafirði til Vopnafjarðar, og upptökur frá ýmsum menningarviðburðum. Má þar t.d. nefna myndir frá sýningunni Drekinn ´89, Djasshátíðum á Egilsstöðum, 400 ára verslunarafmæli Djúpavogs og frá 60 ára afmæli Neskaupstaðar, svo fátt eitt sé talið. Meðal efnisins eru einnig frétta- og mannlífsþættirnir Austurglugginn, sem Austfirska sjónvarpsfélagið sendi út á árunum 1988 til 1990.

Efnisskrá myndefnisins er að finna hér á heimasíðu Héraðsskjalasafns Austfirðinga

Það er von héraðsskjalavarðar Austfirðinga að það bætta aðgengi sem nú er að þessum gagnabanka um líf og störf Austfirðinga veki áhuga bæði fræða- og námsfólks, að nýta það til ýmissa verkefna, sem og almennings að leggja leið sína í safnið til að skoða það sem á diskunum er, sér til gagns eða skemmtunar. Það er engum vafa undirorpið að það efni sem þarna um ræðir veitir einstæða innsýn í austfirska menningu síns tíma.

Það hljóð- og myndefni sem hér hefur verið fjallað um er ekki ætlað til útláns úr safninu frekar en skjöl sem varðveitt eru í því. Að efnisskrárnar séu aðgengilegar á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins gerir hins vegar að verkum að áhugasamir geta hvar sem þeir eru staddir kynnt sé þær og ráðið af þeim hvað helst höfðar til viðkomandi að kynna sér frekar.

Vakni spurningar eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Héraðsskjalasafn Austfirðinga.

Verið velkomin í Héraðsskjalasafn Austfirðinga!

HL

Umdæmi héraðsskjalasafna

Borði

Tengdu á okkur

Borði
Senda á Facebook
Borði
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi

Heimasíður skjalasafna

Borði
Borði
Borði
Borði
Borði
Höfundarréttur © 2015 hs.bkdata.net. Öll réttindi áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL leyfi.